Bjarni Harðarson hjá Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi var gestur á opnum fundi Framsóknarfélags Árborgar í gær þar sem hann fór yfir bókajólin 2023 og kynnti helstu bækurnar, sem hann er að gefa út fyrir jól en þær eru rétt um 30. Hann hefur tröllatrú á því að þetta verði góð jólabókajól.
„Öll jól eru bókajól og allir bókamenn fá bók í jólagjöf en við verðum auðvitað að vona að það verði sem allra flestir enda sýna nú nýjustu kannanir að þjóðin þarf að herða sig í og við þurfum að muna eftir því við Íslendingar að við erum bókaþjóð og við eigum að vera stolt af því,“ segir Bjarni og heldur áfram.
„Jú, lestur hefur dalað og menn eru stundum að halda að það sé allt Storytel að kenna en ég held að það sé ekki rétt. Ég held að það sé ein ástæða öðrum fremur að þjóðin, ekki bara við heldur heimsbyggðin les minna og það þetta hérna Magnús, það er snjallsíminn. Við sjáum þessa miklu bylgju niður á við akkúrat á sama tíma og snjallsíminn verður tæki okkar allra og við þurfum öll sjálfra okkar vegna að venja okkur svolítið af því, ég er ekkert bestur, venja okkur svolítið af því að vera alltaf með nefið ofan í litla skjánum, sem er vasanum hjá okkur“.

Ein af bókunum, sem Bjarni gefur út fyrir jólin hefur nú þegar verið tilnefnd til Fjöruverðlaunanna, fyrsta bók ungra skáldkonu norður í Aðaldal, sem heitir Ester Hilmarsdóttir og fjallar um blæðingar kvenna.
„Bókin heitir Fegurðin í flæðinu og fjallar um, og haltu þér nú Magnús, hún fjallar um blæðingar kvenna en hún er listavel gerð og hún er um leið saga af stöðu konunnar og saga af, já hún segir okkur svo margt. Hún er líka fyrir okkur karlpungana til að lesa,“ segir Bjarni.
