Í heildina voru kvikmyndir frá 88 löndum lagðar fram til verðlaunanna þetta árið, en eftir niðurskurðinn eiga fimmtán myndir enn möguleika á tilnefningu. Tilkynnt verður um hvaða fimm myndir verða svo að lokum tilnefndar þann 23. janúar 2024. Óskarsverðlaunahátíðin sjálf fer svo fram 10. mars.
Volaða land er í leikstjórn Hlyns Pálmasonar og var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2022, þar sem hún keppti um Un Certain Regard-verðlaun hátíðarinnar. Hún hefur svo verið sýnt á fjölda kvikmyndahátíða víða um heim.
Myndirnar fimmtán sem enn eiga möguleika á að hljóta tilnefningu sem besta erlenda mynd:
- Amerikatsi (Armenía)
- The Monk and the Gun (Bútan)
- The Promised Land (Danmörk)
- Fallen Leaves (Finnland)
- The Taste of Things (Frakkland)
- The Teachers’ Lounge (Þýskaland)
- Volaða land (e. Godland) (Ísland)
- Io Capitano (Ítalía)
- Perfect Days (Japan)
- Totem (Mexíkó)
- The Mother of All Lies (Marokkó)
- Society of the Snow (Spánn)
- Four Daughters (Túnis)
- 20 Days in Mariupol (Úkraína)
- The Zone of Interest (Bretland)
Myndin er sögð saga af baráttu manns við náttúruna, trúna og sitt dýrslega eðli. „Undir lok 19. aldar ferðast ungur danskur prestur til Íslands í þeim tilgangi að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar. Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna. Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu og eigin siðgæði.
Hún er framleidd af Antoni Mána Svanssyni fyrir Join Motion Pictures og Katrin Pors, Eva Jakobsen og Mikkel Jersin fyrir Snowglobe í Danmörku. Dreifingaraðili myndarinnar í Bandaríkjunum er Janus Films,“ segir um myndina.
Hróður myndarinnar hefur farið nokkuð víða og á dögunum útnefndi breska blaðið Guardian til að mynda myndina sem sjöttu bestu kvikmynd ársins.