Erlent

Grunaður um morð á fjórum börnum og barns­móður á jóla­dag

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Móðirin, 35 ára, og börnin, níu mánaða, fjögurra, sjö og tíu ára, fundust látin á heimili sínu í Meaux í gærkvöldi.
Móðirin, 35 ára, og börnin, níu mánaða, fjögurra, sjö og tíu ára, fundust látin á heimili sínu í Meaux í gærkvöldi. EPA

Karlmaður á fertugsaldri var handtekinn nærri París í nótt eftir að lík fjögurra barna hans og móður þeirra fundust í íbúð skömmu frá höfuðborginni í gær. Lögreglan í Frakklandi rannsakar málið sem morð. 

Lögreglan í Frakklandi hóf leit að konunni, sem einnig er á fertugsaldri, og börnunum fjórum eftir að aðstandendur náðu ekki sambandi við þau símleiðis. Börnin voru á aldrinum níu mánaða til tíu ára. Lík þeirra fundust í íbúð í bænum Meaux, sem er í um fjörutíu kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni.

Í nótt náði lögregla haldi á föður barnanna, 33 ára gömlum manni sem er samkvæmt frönskum miðlum þegar kunnugur lögreglu og er sagður glíma við andleg veikindi. Maðurinn var á heimili föður síns í bænum Sevran nærri París þegar hann var handtekinn. Hann er grunaður um að hafa stungið konuna og börnin til bana. 

Saksóknari hjá dómslögreglunni í Versölum hefur staðfest við franska miðla að morðrannsókn sé hafin vegna málsins. 

Málið er samkvæmt BBC þriðja barnamorðið sem framið hefur verið á Parísarsvæðinu á skömmum tíma. Í lok nóvember játaði maður á fimmtugsaldri að hafa myrt þrjár dætur sínar, sem voru á aldrinum fjögurra til ellefu ára.

Þá er lögreglumaður sagður hafa myrt dætur sínar þrjár og í kjölfarið framið sjálfmorð í október. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×