Erlent

Dæmdir í ára­langt fangelsi fyrir ljóð­lestur gegn á­tökunum í Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mennirnir voru dæmdir í Mosvku í gær.
Mennirnir voru dæmdir í Mosvku í gær.

Dómstóll í Moskvu í Rússlandi hefur dæmt tvo menn fyrir að flytja ljóð og vera viðstaddir upplesturinn en um var að ræða mótmæli gegn átökunum í Úkraínu.

Artyom Kamardin, 33 ára, var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir ljóðlestur og Yegor Shtovba, 23 ára, í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir að vera viðstaddur.

Mikið öryggisgæsla var í dómsalnum þegar dómurinn var kveðinn upp og gerðu stuðningsmenn mannanna hróp að dómaranum og yfirvöldum þegar gert var grein fyrir niðurstöðunni. Nokkrir þeirra voru handteknir fyrir utan dómshúsið samkvæmt blaðamanni AFP.

Þúsundir hafa verið handteknir í Rússlandi fyrir að mótmæla innrásinni í Úkraínu og ströng lög verið sett til höfuðs mótmælendum. 

Kamardin hefur greint frá því að hafa verið nauðgað af lögreglumönnum og neyddur til að taka upp afsökunarbeiðni, undir hótunum gegn eiginkonu hans. Hann sagði fyrir dómi að hann hefði ekki vitað að hann væri að brjóta lög þegar hann las upp ljóð gegn átökunum og hrópaði slagorð gegn „Nýja-Rússlandi“.

„Ég er ekki hetja og það var ekki ætlun mín að fara í fangelsi skoðanna minna vegna,“ sagði hann í yfirlýsingu.

Shtovba neitaði einnig að hafa gert nokkuð rangt. „Hvað hef ég gert sem er ólöglegt? Lesið ljóð?“ spurði hann.

Guardian fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×