Enski boltinn

Man. Utd missir Onana ekki strax eins og Liverpool missti Salah

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Onana ver hér frá Mohamed Salah í leik Manchester United á móti Liverpool í desember síðastliðnum.
Andre Onana ver hér frá Mohamed Salah í leik Manchester United á móti Liverpool í desember síðastliðnum. Getty/Peter Byrne

André Onana mun standa í marki Manchester United í næstu tveimur leikjum liðsins þrátt fyrir að vera á leiðinni í Afríkukeppnina með kamerúnska landsliðinu.

Manchester United náði samkomulagi við knattspyrnusamband Kamerún um það að Onana færi ekki strax.

Aðalmarkvörður United mun því spila næstu tvo leiki liðsins, fyrst bikarleik á móti Wigan Athletic á mánudaginn kemur og svo deildarleik á móti Tottenham sem fer fram 14. janúar. ESPN segir frá.

Kamerún leikur sinn fyrsta leik í Afríkukeppninni aðeins einum sólarhring eftir Tottenham leikinn eða 15. janúar.

Ensku úrvalsdeildarfélögin urðu að losa leikmenn sem spila í Afríkukeppninni þann 1. janúar síðastliðinn.

Liverpool maðurinn Mohamed Salah yfirgaf sem dæmi Liverpool eftir sigurinn á Newcastle á Nýársdag og spilar því ekki bikarleikinn við Arsenal um komandi helgi. Egyptaland gæti farið langt á mótinu og Salah misst af allt að átta leikjum Liverpool.

Kamerúnska landsliðið er nú í æfingabúðum í Sádi-Arabíu og spilar vináttulandsleik við Sambíu 9. janúar næstkomandi.

Onana hætti í landsliðinu á miðju síðasta heimsmeistaramóti eftir ósætti við Rigobert Song þjálfara en var beðinn um að snúa til baka fyrir leik í undankeppni Afríkukeppninnar í september síðastliðnum sem og hann gerði.

Onana hafði áður sagt forráðamönnum United frá því síðastliðið sumar að hann væri hættur í landsliðinu. Það hefur örugglega áhrif á það að hann fær leyfi til að koma seinna til móts við landsliðið að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×