Innlent

Mót­mæla að­gerðar­leysi vegna Gasa við Ráð­herra­bú­staðinn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mótmælendur fyrir utan ráðherrabústaðinn.
Mótmælendur fyrir utan ráðherrabústaðinn. Vísir

Mótmælendur komu saman við Ráðherrabústaðinn í morgun þar sem ríkisstjórn Íslands fundaði og mótmæltu þeir að eigin sögn aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda vegna ástandsins á Gasa. Ríflega fimmtíu manns voru fyrir utan bústaðinn í morgun.

Félagið Ísland-Palestína stendur fyrir mótmælunum en mótmælendur mættu klukkan 09:00 í morgun. Þeir létu vel í sér heyra. Félagið hefur í vetur reglulega mætt til mótmæla vegna ástandsins á Gasa og árásar Ísraelsmanna.

Þess er krafist að ríkisstjórn Íslands veiti öllu palestínsku flóttafólki vernd og að fólki sem fengið hafi samþykkta fjölskyldusameiningu verði komið til landsins. Stjórnvöld eru krafin um það að stöðva án tafar allar brottvísanir á palestínsku flóttafólki.

Þá krefjast mótmælendur þess að íslensk stjórnvöld beiti viðskiptaþvingunum gegn Ísrael og slíti stjórnmálasambandi við landið. Auk þess krefjast mótmælendur þess að Ísland taki undir ákæru Suður-Afríku á hendur Ísraelsríkis fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag.

Mótmælendur létu kröfuspjöldum rigna yfir götuna. Vísir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×