Körfubolti

„Hann þolir ekki þegar ungir menn rífa kjaft“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Kerr ræðir málin við Jonathan Kuminga í leik hjá Golden State Warriors.
Steve Kerr ræðir málin við Jonathan Kuminga í leik hjá Golden State Warriors. Getty/Thearon W. Henderson

Golden State Warriors liðið verður til umræðu í Lögmáli leiksins þættinum sem er á dagskránni á Stöð 2 Sport 3 í kvöld. Í þættinum fara sérfræðingarnir yfir síðustu viku í NBA deildinni í körfubolta.

Það hefur lítið gengið hjá Golden State mönnum og það þótt að Stephen Curry sé að spila vel. Liðið missti Draymond Green í bann og er nú með versta árangurinn í Kyrrahafsriðlinum. Pirringurinn magnast innan liðsins og það á líka við minni spámenn í liðinu.

„Önnur frétt sem hafði mikil áhrif á Tomma. Hann þolir ekki þegar ungir menn rífa kjaft,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmaður þáttarins. Hann tók fram frétt um opinbera gagnrýni eins leikmanns Warriors liðsins á þjálfara sinn.

„Jonathan Kuminga er búinn að missa trúna á Steve Kerr. Hann var að spila vel í fyrri hálfleik í leik gegn Denver Nuggets en spilaði svo bara sex mínútur í seinni hálfleik,“ sagði Kjartan.

„Tommi, hvernig leið þér þegar þú last þetta með morgunkaffinu,“ spurði Kjartan.

„Steve Kerr er einn af fáum sem hefur haft einhvers konar trú á Kuminga og leyft honum að spila. Hann hefur aldrei náð einhverjum leikjum í röð þar sem hann hefur sýnt að hann geti verið leikmaður í liði. Þú verður að vinna þér inn smá virðingu áður en þú ferð að kasta þessu út,“ sagði Tómas Steindórsson.

„Þetta sýnir líka kannski stöðuna á Golden State Warriors,“ sagði Kjartan og talaði þá um að það væri erfitt að spila Andrew Wiggins og Kuminga saman.

Hér fyrir neðan má sjá aðeins fleiri vangaveltur um stöðu mála hjá Golden State liðinu. Þátturinn er á dagskránni klukkan 20.00 á Stöð 2 Sport 3 í kvöld.

Klippa: Lögmál leiksins: Gagnrýndi þjálfara sinn hjá Golden State



Fleiri fréttir

Sjá meira


×