Lífið

Neitar Taylor Swift-hamstri og segir reikninginn hafa verið hakkaðan

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Svo virðist sem einhver hafi hakkað sig inn á Twitter-aðgang Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar til að hæðast að prófessornum.
Svo virðist sem einhver hafi hakkað sig inn á Twitter-aðgang Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar til að hæðast að prófessornum. Vísir/Vilhelm

Hannes Hólmsteinn neitar því að hafa reynt að selja miða á tónleika Taylor Swift. Hins vegar hafi einhver óprúttinn aðili brotist inn á reikning hans á X (áður Twitter) sem skýri miðasöluna.

DV greindu frá því að Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, hafi tvisvar sinnum auglýst Taylor Swift miða til sölu á samfélagsmiðlinum X á undanförnum dögum.

Fyrst hafi hann þann 14. janúar síðastliðinn auglýst tvo miða til sölu á tónleika Taylor Swift í kanadísku stórborginni Vancouver sem fara fram í desember á næsta ári.

Hann hafi síðan í nótt aftur auglýst tvo miða á Taylor Swift til sölu. Svo virðist hins vegar sem Hannes sé ekki þessi yfirlýsti Taylor Swift-aðdáandi sem hann virðist vera á X-inu.

Kannaðist ekki við söngkonuna frægu

Hannes brást við fréttaflutningi DV af tónleikamiðahamstrinu á Facebook í kvöld þar sem hann spurði hvernig í ósköpunum  DV dytti í hug að hann væri að selja miða á tónleika Taylor Swift.

„En það er hins vegar rétt, að einhver hefur brotist inn á Twitter-reikning minn (í desember síðastliðnum) og skipt um aðgangsorð, svo að ég kemst ekki inn á hann,“ segir hann í færslunni.

Hann segist hafa margreynt að fá „Twitter eða X“ til að lagfæra það en það hafi ekki gengið og hann skilji ekki seinaganginn.

„Ég vissi raunar ekki, hver Taylor Swift var, fyrr en ég sá þetta,“ skrifaði hann í lok færslunnar.

Ef X-aðgangur Hannesar er skoðaður nánar má þar sjá stuðningsyfirlýsingar við Joe Biden, Bandaríkjaforseta, og deilingar á færslum sem gagnrýna eða gera lítið úr Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Þekkjandi hægrisinnaðar skoðanir Hannesar virðist eitthvað skakkt þar.

Svo virðist sem einhver hafi hakkað sig inn á aðgang Hannesar til að hæðast að honum og láta sem hann hafi skoðanir sem séu í raun þveröfugar við það sem honum finnst. Auk þess að gagnrýna Trump og hylla Biden þá hefur aðgangurinn endurbirt margar færslur um sjálfstæði Skotlands og hvað Brexit voru mikil mistök.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×