Albert og félagar í Genoa unnu 2-1 sigur á Lecce í ítölsku deildinni í gær. Eftir þennan sigur er liðið í ellefta sæti og Albert er áfram í aðalhlutverki hjá nýliðunum.
Albert skoraði reyndar ekki í leiknum en hann var ótrúlega nálægt því að skot hans úr aukaspyrnu bjó til jöfnunarmark liðsins.
Albert átti þá skot úr aukaspyrnu í slána og niður en það munaði aðeins millimetrum að boltinn færi inn fyrir línuna.
Liðsfélagi Alberts, Mateo Retegui, var hins vegar réttur maður á réttum stað og skallaði frákastið í markið. Caleb Ekuban skoraði síðan sigurmarkið sex mínútum síðar.
Það má sjá þetta frábæra skot Alberts hér fyrir ofan og hversu litlu munaði að hann hefði skorað. Hann fór til dómara leiksins til að athuga hvort að hann hefði ekki örugglega athugað úrið sitt og þar með marklínutæknina. Í ljós kom að marklínutæknin hjálpaði ekki okkar manni því boltinn fór ekki allur yfir línuna.
Albert er engu að síður kominn með níu deildarmörk á tímabilinu og þetta hefði því verið hans tíunda mark. Hann er eins og er í fjórða til sjöunda sæti yfir markahæstu menn Seríu A á leiktíðinni.
Það eru aðeins þrír menn sem hafa skorað meira en íslenski framherjinn en það eru Lautaro Martinez hjá Inter (19 mörk), Dusan Vlahovic hjá Juventus (12 mörk) og Olivier Giroud hjá AC Milan (10 mörk).