Lífið

„Það er enginn að tala um þetta en ég læt í mér heyra“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sigurjón hefur áhyggjur af stöðunni.
Sigurjón hefur áhyggjur af stöðunni.

„Því miður er þetta alltaf þróunin. Í janúar ætlar fólk að sigra heiminn og svo hægt og rólega fer það að dala út,“ segir Sigurjón Erni Sturluson, einn fremsti hlaupari landsins og eigandi Ultraform, í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi.

„Ég stend aldrei á mínum skoðunum. Af því sögðu segi ég alltaf að ég er ekki næringarfræðingur, læknir eða doktor en ég er bara mjög mikill áhugamaður um þetta. Við sjáum það í dag að ég las til að mynda grein í dag að það er spáð 77% aukningu í krabbameinum til ársins 2050 og varðandi ADHD þá erum við held ég heimsmeistarar í lyfjagjöfum þar. Svo erum við að sjá þetta í sykursýki og bara í öllum lífsstílstengdum sjúkdómum. Það er enginn að tala um þetta en ég læt í mér heyra.“

Sigurjón vonar að við sem samfélag séum að vakna til lífsins. Hann bætir því við að í rauninni sé þetta bara einfalt. Við eigum að hreyfa okkur, finna hreyfingu sem okkur þykir skemmtileg og hvað matarræði varðar;

„Ef við förum bara aftur í það hvað vorum við Íslendingar að borða. Það er nokkuð einfalt, við borðuðum bara frá náttúrunni. Og í dag erum við bara alls ekki að gera það. Við borðuðum mikið það sem var í sjónum og ef við myndum fara gera það aftur gætum við klárlega orðið heilsusamlegasta þjóð í heimi. Við erum eyja og gætum lifað á okkar eyju.“

Hér að neðan má sjá brot úr innslagi gærkvöldsins en áskrifendur geta horft á það í heild sinni á Stöð 2+ og inni í frelsiskerfi Stöðvar 2.

Klippa: Í janúar ætlar fólk að sigra heiminn





Fleiri fréttir

Sjá meira


×