Innlent

Gátu ekki „opnað um­slögin“ en taka aftur við til­nefningum á föstu­dag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Advania hefur haldið utan um ýmsar kosningar en aðlaga þurfti kerfi fyrirtækisins að tilnefningarferlinu.
Advania hefur haldið utan um ýmsar kosningar en aðlaga þurfti kerfi fyrirtækisins að tilnefningarferlinu.

Kjörstjórn Þjóðkirkjunnar hefur ákveðið að tilnefningarferlið í fyrirætluðu biskupskjöri, sem hófst 1. febrúar síðastliðinn og lauk á hádegi í gær, sé enn í gangi en að endurtaka þurfi tæknilega framkvæmd þess.

Þetta kemur fram í tilkynningu á kirkjan.is.

Vísir greindi frá því í morgun að við úrvinnslu tilnefninganna hjá Advania hefðu komið upp tæknilegir örðugleikar sem gerðu kjörnefnd ókleift að nálgast niðurstöður tilnefningaferlisins. 

Unnið væri að úrbótum og tilnefningaferlið hafið á ný síðar í vikunni.

Fréttastofu bárust í kjölfarið ábendingar um að þarna kæmu mögulega til álita starfsreglur um kosningu Biskups Íslands en þar segir að kjörstjórn sé skylt að auglýsa tilnefningarferlið með viku fyrirvara.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu virðist kjörstjórn hins vegar, eins og fyrr segir, hafa komist að þeirri niðurstöðu að ferlið sem auglýst var á sínum tíma sé í raun enn í gangi og því þurfi ekki að auglýsa það upp á nýtt.

Tekið verður við tilnefningum frá því klukkan 12 föstudaginn 9. febrúar og til klukkan 14 miðvikudaginn 14. febrúar.

Advania hefur sent kjörstjórn afsökunarbeiðni þar sem greint er frá því að villa hafi komið upp við afkóðun tilnefninganna. Þetta gerði það að verkum að ekki var hægt að telja atkvæðin „á réttmætan hátt“, segir í bréfinu.

Eins og það var orðað við fréttastofu þá má líkja þessu við að tilnefningarnar hafi verið settar í umslög og sendar inn en ekki reynst mögulegt að opna umslögin þegar átti að telja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×