Einleikarinn heitir Vadim Gluzman og er samkvæmt heimasíðu Sinfóníunnar meðal fremstu fiðluleikara samtímans.. Hann er þekktur fyrir túlkun sína á verkum frá gullöld fiðlubókmenntanna.
Hann er fæddur í Úkraínu en fluttist til Ísraels sextán ára gamall í svokallaðri „alíju“ sem er hebreskt hugtak yfir flutninga gyðinga búsettra víðs vegar um heiminn til landsins helga.
Í viðtali við bandarísk-ísraelsku menningarsamtökin AICF segist hann vera fyrrverandi hermaður og stoltur af því að hafa sinnt herskyldu.
„Ég er stoltur af því að vera Ísraeli, stoltur að hafa sinnt skyldu minni í ísraelska hernum og stoltur af því að eiga heima í Ísrael,“ segir hann.
Með því að bera saman útgáfur af kynningarsíðu tónleikanna annars vegar frá 4. október 2023 og hins vegar í dag á síðu Wayback Machine, sem er síða sem geymir gamlar útgáfur af vefsíðum, er hægt að sjá að í eldri útgáfu síðunnar var skýrt tekið fram í upphaf textans að Vadim væri Ísraeli.
Vildu ekki tjá sig
Ísraelskur uppruni hans kom fram á upphaflegu auglýsingarefni tónleikahaldara en eftir að kvartanir bárust um að Sinfóníuhljómsveit Íslands ætlaði að spila með stoltum fyrrverandi ísraelskum hermanni hafi nýtt auglýsingarefni verið birt þar sem ekkert kom um herþjónustu Vadims.
Í nýja efninu komi aðeins fram að hann sé fæddur í Úkraínu. Einnig hafi ekkert verið snert á þessu í umfjöllun Ríkisútvarpsins um tónleikana.
Haft var samband við Láru Sóleyju Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveit Íslands og Margréti Ragnarsdóttur, markaðs- og kynningarstjóra en þær vildu ekki tjá sig um málið.