Juventus, AC Milan, Inter Milan og Roma greiddu öll atkvæði með því að fækka liðum í ítölsku úrvalsdeildinni, Serie A, úr 20 niður í 18 lið. Opinber útskýring félaganna var sú að þetta myndi herða samkeppni deildarinnar og sömuleiðis leiða til betri árangurs ítalskra liða í Evrópukeppnum vegna minna leikjaálags heima fyrir.
Urbando Cairo, forseti Torino, gaf lítið fyrir þær útskýringar. Hann benti til Spánar og Englands, þar sem 20 lið spila í efstu deild, og sagði það fremstu deildir heims. 18 liða deildir þekkjast í Þýskalandi og Frakklandi.
„Það sem þau vilja er lítil Ofurdeild“ sagði hann í viðtali við ítalska fjölmiðilinn ANSA. „Fundurinn í dag staðfesti það að flest lið vilja 20 liða deild, líkt og þekkist á Spáni og Englandi. Þær deildir sýna að 20 liða fyrirkomulag virkar best“ hélt hann svo áfram.
Paolo Scaroni, forseti AC Milan, talaði opinskátt um stuðning félagsins við 18 liða deild og taldi upp jákvæð áhrif þess í viðtali við Rai Radio.
Tillagan var felld í atkvæðagreiðslu en Juventus, AC Milan, Inter Milan og Roma voru þau einu sem greiddu atkvæði með henni.