„Planið var keyra upp hraðann og treysta á að þeir myndu fara að klikka úr skotum í fjórða leikhluta sem gekk ágætlega,“ sagði Pétur Ingvarsson eftir leik.
Álftanes hitti afar vel fyrir utan þriggja stiga línuna og voru með 70 prósent þriggja stiga nýtingu úr fyrstu tíu skotnum. Voru Keflvíkingar teknir á eigin bragði í fyrri hálfleik?
„Já og nei. Tölfræði nær alltaf í rassinn á fólki. Við vissum að þeir myndu ekki skjóta svona allan leikinn og þetta var ekki sjálfbært. Við vorum þolinmóðir og ég sagði við liðið í hálfleik að við myndum ekki vinna þetta í þriðja leikhluta heldur fjórða leikhluta.“
Keflavík vann leikinn hins vegar ekki í fjórða leikhluta eins og Pétur sagði við liðið í hálfleik heldur þurfti tvær framlengingar til og Pétur var afar ánægður að hafa náð að landa sigri.
„Þetta er 100 metra hlaup og það skiptir engu máli hver er fyrstur eftir 20 metra. Það skiptir engu máli heldur skiptir það máli hver er fyrstur þegar að 100 metrarnir eru búnir og við komumst fyrstir í mark í kvöld sem var jákvætt.“
„Menn taka áhættu. Þú þarft að hafa trú á því sem þú ert að gera og skjóta með miklu sjálfstrausti og berjast sem lið. Það er alveg sama hvað einhver þjálfari segir í framlengingu það skiptir engu máli það eru leikmennirnir sem vinna leikinn.“
„Við vorum að spila án besta leikmanns deildarinnar, allavega einn af þremur bestu leikmönnum deildarinnar. Við vorum án hans og þetta var geggjaður sigur hjá strákunum,“ sagði Pétur Ingvarsson og þar átti hann við Remy Martin sem einn besta leikmann deildarinnar.