Skiptir þá engu hvort meðmælin séu frábær eða fyrri reynsla.
Eða hvort stundvísi og áræðanleiki sé einkennismerkið þitt.
Svo ekki sé talað um að eftir fimmtugt eru ekki lengur fjarverudagar vegna til dæmis veikindi barna og svigrúm til að taka sumarfríið út óháð lokun leikskóla.
Nei segir tölfræðin. Fimmtugir og eldri virðast hreinlega ekki eiga mjög mikinn séns.
En hér eru nokkur góð ráð sem geta hjálpað.
1. Mildaðu aldurstengingar
Fyrir utan kennitöluna þína, er hægt að gefa upplýsingar upp í ferilkrá án þess að vera ítrekað að draga fram af hvaða kynslóð þú ert.
Dæmi um algenga gryfju er netfangið. Ef það er tölvupóstfang frá aðila sem þekkist ekki á markaði í dag og er nánast ekki nýtt nema af eldra fólki, er um að gera að stofna gmail.
Þá er hægt að tilgreina menntun án þess að tilgreina útskriftarár.
Eins er mælt með því að fara ekki of langt aftur í tímann með starfsreynslu. Eða að gefa þeim störfum sem þú sinntir síðustu árin, mun meira vægi en eldri störfum.
2. Ráð eða meðmæli frá þér yngra fólki
Leitaðu ráða hjá þér yngra fólki og ef þú getur fengið meðmæli frá ungum stjórnanda þá getur það líka komið vel út.
Að fá til dæmis einhvern sem þú treystir vel en gengur vel í atvinnulífinu til að lesa yfir ferilskránna þína og gefa þér endurgjöf gæti verið mjög sterkur leikur.
3. Ertu góður mentor?
Kynslóðaskipti eru stór áskorun fyrir marga vinnustaði en aldrei hefur það gerst fyrr að fjórar kynslóðir hafa starfað saman í atvinnulífinu eins og nú er. Ef þú telur þig vera góðan mentor og eiga auðvelt með að leiðbeina öðrum og miðla af reynslunni þinni, er um að gera að taka það fram.
Að sama skapi er mikilvægt að taka fram hversu fljótt þú nærð að tileinka þér nýja hluti eða breytingar.
4. Taktu dæmi um nýlegan árangur
Þá er gott að tilgreina með dæmum hversu góða og mikla reynslu þú hefur á ákveðnum sviðum eða verkefnum.
Þó þannig að dæmin þín fari ekki of langt aftur í tímann, enda hefur tækniþróun verið hröð síðustu árin og því gæti það dregið úr líkunum þínum ef árangurssögur ná of langt aftur í tíma.
5. Annar undirbúningur gildir líka
Loks er það allur annar undirbúningur, sem þó á við hvaða aldur sem er. Að vinna vel í ferilskránni, kynningarbréfinu, æfa sig undir atvinnuviðtal og svo framvegis.
Að nýta tengslanetið til að benda á þig sem vænlegan starfsmann og svo framvegis.
Í meðfylgjandi grein má sjá enn fleiri góð ráð.