Innlent

Hafa náð saman um for­sendu­á­kvæði og funda aftur í dag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fundarhöld hefjast á ný nú í morgunsárið.
Fundarhöld hefjast á ný nú í morgunsárið. Stöð 2/Arnar

Breiðfylkingin svokallaða og Samtök atvinnulífsins hafa náð saman um forsenduákvæði kjarasamninga eftir langan samningafund í gær. Fundarhöld hefjast að nýju klukkan níu.

Frá þessu greinir Morgunblaðið og segir öll félögin innan breiðfylkingarinnar hafa skrifað undir samkomulag um foresenduákvæði um þróun vaxta og verðbólgu nema VR og LÍV.

Afstaða þeirra muni skýrast í dag.

Viðræðum breiðfylkingarinnar og SA var slitið fyrr í þessum mánuði vegna forsenduákvæðanna en forysta SA sagði þau binda heldur Seðlabanka Íslands og vega að sjálfstæði hans. Seðlabankastjóri sagði hins vegar að aðilar vinnumarkaðarins gætu samið um hvað sem er; forsenduákvæði kjarasamninga myndu ekki hafa nein áhrif á ákvarðanir bankans.

„Við erum að gera kjarasamning út frá ákveðnum efnahagslegum forsendum. Ef þær efnahagslegu forsendur standast ekki, meðal annars varðandi verðbólgu og vaxtastig, þá er forsenda fyrir þeim launatölum sem við erum þó búin að ná saman um ekki lengur fyrir hendi,“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, 14. febrúar síðastliðinn.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, sagði í vikunni að SA hefðu fram til dagsins í dag til að koma með nýjar tillögur að samningaborðinu. Annars neyddust menn til að grípa til aðgerða. 

Fagfélögin eiga í aðskildum viðræðum við SA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×