Erlent

Stakk konu sína og þrjú börn

Samúel Karl Ólason skrifar
Fimm lík fundust á heimili á Honolulu í gærmorgun.
Fimm lík fundust á heimili á Honolulu í gærmorgun. AP/Craig T. Kojima

Lík hjóna og þriggja barna fundust um helgina á heimili þeirra í í Honolulu á Havaíeyjum. Forsvarsmenn lögreglunnar segja útlit fyrir að maður hafi stungið eiginkonu sína og þrjú börn þeirra til bana, áður en hann svipti sig einnig lífi.

Lögregluþjóna fóru fyrst að heimili fólksins á sunnudagsmorgun, eftir að símtal barst frá manneskju sem gaf ekki upp nafn sitt. Enginn kom til dyra og þurftu lögregluþjónarnir frá að hverfa.

Þeir sneru þó aftur skömmu síðar og fundu lík konunnar og barnanna, sem voru tíu, tólf og sautján ára gömul. Þau höfðu verið stungin til bana. Lík mannsins fannst einnig en lögreglan hefur, samkvæmt AP fréttaveitunni, ekki gefið upp hvernig hann dó.

Forsvarsmenn lögreglunnar segja lögregluþjóna aldrei hafa verið kallaða til heimilisins vegna heimilisofbeldis eða slíkra mála og að tilefni morðanna liggi ekki fyrir.

Haft er þó eftir vitnum að komið hafi til rifrildis á heimilinu um morguninn.

Þetta er talið vera eitthvað versta ódæði Havaíeyja frá því maður skaut sjö samstarfsmenn sína til bana árið 1997.

Lögregluþjónarnir sem komu að líkunum eru sagðir hafa orðið fyrir miklum áhrifum en Joe Logan, lögreglustjóri, segir að enginn lögregluþjónn gæti komist óskaddaður í gegnum slíkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×