Skoðun

Eigum við að splæsa í mann­réttinda­brot fyrir 5-7 milljarða ár­lega gagn­vart eldri borgurum?

Gunnar Ármannsson skrifar

Ég sat málþing á vegum Læknafélags Íslands í gær um sóun í heilbrigðiskerfinu. Ég kom frekar seint og hafði áhyggjur af því að ég fengi ekki sæti. Það voru óþarfa áhyggjur því þarna voru fáir á staðnum. Amk engir embættismenn né fulltrúar kosnir af almenningi. En þar sem fundinum var streymt geri ég ráð fyrir að starfsmenn okkar og fulltrúar hafi fylgst með eftir sínum hentugleikum.

Þarna var boðið upp á mjög athyglisverðar samræður fjögurra lækna sem komu víða að úr kerfinu og sem náðu að snerta á mjög mörgum viðfangsefnum. Það hefði verið áhugavert, og mögulega aukið við gagnsemi málþingsins, ef þarna hefðu verið til staðar embættismenn eða kjörnir fulltrúar fólksins til að taka þátt í samræðum sem boðið var upp á undir styrkri stjórn Sirrýjar Arnardóttur fjölmiðlakonu.

En hvað um það, eitt af því sem ég hjó sérstaklega eftir voru orð Ragnars Freys Ingvarssonar, formanns Læknafélags Reykjavíkur, um að á hverjum einasta degi allt árið séu í kringum 100 eldri sjúklingar á spítalanum sem eru tilbúnir til útskriftar – en sem útskrifast ekki af því að það vantar viðeigandi úrræði fyrir þá til að hverfa að. Hver dagur á spítalanum fyrir hvern einstakling kostar á bilinu 150.000 til 200.000. Það eru 5-7 milljarðar á ári sem kostar að hýsa þennan hóp í dýrasta heilbrigðisúrræði landsins. Hópur sem vill ekki og þarf ekki að vera á spítalanum. Og á meðan kemst ekki fólk inn á spítalann sem þarf á því að halda.

Ragnar gekk svo langt að kalla það mannréttindabrot að halda þessu fólki inni á spítalanum í óþökk þess sjálfs. Undir það má taka.

Vissulega kostar að fjölga úrræðum fyrir þennan hóp. En miðað við kostnaðinn sem við nú berum vegna ástandsins gæti það borgað sig hratt að bretta upp ermar og fjölga öðrum möguleikum.

Við sem erum komin á seinni hluta starfsævinnar gætum notið góðs af því í ekki svo fjarlægri framtíð.

Við hljótum að geta gert betur sem þjóð.

Höfundur er áhugamaður um íslenskt heilbrigðiskerfi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×