„Það ætti ekki að koma neinum á óvart að ég mun ekki lýsa stuðningi við Donald Trump í ár,“ sagði Pence í viðtali á sjónvarpsstöðinni Fox News en þetta er í fyrsta sinn sem hann upplýsir um afstöðu sína frá því að Trump varð væntanlegur forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins. Pence sóttist einnig eftir því að verða forsetaefni flokksins fyrir komandi kosningar en dró framboð sitt gegn Trump til baka áður en innanflokkskjör hófst í fyrra.
Pence: I will not be endorsing Donald Trump pic.twitter.com/YJIuTBjzNR
— Acyn (@Acyn) March 15, 2024
Flokksforingjar ætlast til þess að forsetaframbjóðendaefni sem hljóti ekki náð fyrir augum flokksmanna snúi bökum saman þegar líða fer að forsetakosningum og hvetji stuðningsfólk sitt til að styðja fulltrúa repúblikana. Til að mynda voru þátttakendur í forvali flokksins látnir heita því að styðja að endingu við forsetaefnið.
Pence kemur fast á hæla annarra hátt settra aðila innan ríkisstjórnar Trumps sem neita að lýsa yfir stuðningi við nýjustu atlögu þessa fyrrverandi yfirmanns þeirra að Hvíta húsinu. Á meðan flestir þingmenn Repúblikanaflokksins og aðrir hátt settir fulltrúar hans fylkja liði bakvið Trump hefur hávær minnihluti lagst gegn framboði hans, að því er fram kemur í umfjöllun AP-fréttaveitunnar.
Pence var lengi talinn einn tryggasti bandamaður Trumps áður en hann sneri baki við honum og neitaði að taka þátt í tilraunum hans til að halda í völd eftir tapið gegn Joe Biden í forsetakosningunum árið 2020.