Nærri því átján þúsund manns eru nú í Facebookhópi sem Gunnar Helgason stofnaði, þar sem hann skoraði á Baldur að bjóða sig fram. Gunnar er góðvinur Baldurs og Felix og tók nýverið þátt í fundi sem haldinn var nýlega þar sem Valgeir Magnússon, betur þekktur sem Valli sport, kynnti könnun sem hann lét gera um mögulegt framboð Baldurs.
Sjá einnig: Kosningamaskína Baldurs ræsir vélarnar
Í samtali við blaðamann Ríkisútvarpsins segir Baldur að hann og Felix séu enn að meta stöðuna og ætli að tilkynna ákvörðunina í næstu viku.
„Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið þegar Gunni vinur okkar setti áskorunarsíðuna í loftið. Við eigum bara varla til orð yfir hvatningunni sem hefur borist síðan,“ er haft eftir Baldri á vef RÚV.
Halla Tómasdóttir, rekstrarhagfræðingur og forstjóri B Team, hefur boðað til blaðamannafundar í Grósku í Vatnsmýri í hádeginu á morgun en þar mun hún ræða hvort hún ætli að bjóða sig fram til forseta
Sjá einnig: Halla boðar til blaðamannafundar
Fjölmargir hafa tilkynnt framboð til embættis forseta Íslands en fara má yfir listann í Forsetavakt Vísis.