Fyrir helgi tók Mannanafnanefnd fyrir mál manns sem vildi fá eigin- og millinafnið Aftur samþykkt. Nafninu var hafnað í báðum flokkum og í rökstuðningi nefndarinnar segir að það gangi gegn eðli íslenskrar nafnmyndunar að búa til nöfn úr atviksorðum og öðrum smáorðum. Þá gætu slík nöfn verið nafnbera til ama.
Það var Jakob Reynir Jakobsson, veitingamaður á Horninu í miðbæ Reykjavíkur, sem sótti um að fá nafnið samþykkt. Hann hafði stefnt á að taka nafnið upp og heita þá Jakob Reynir Aftur Jakobsson.
„Fyrir um það bil 42 mánuðum síðan var ég á mjög vondum stað í lífinu, búinn að vera lengi. Þannig ég lít svolítið á það að ég fékk tækifæri til að reyna aftur. Þannig þetta hefur þannig þýðingu fyrir mig þótt þetta sé til helmings húmorinn, þá er það þannig að nú er ég búinn að ná þessum árangri í lífinu og fékk tækifæri til þess að reyna aftur,“ segir Jakob Reynir.
Þrátt fyrir höfnun Mannanafnanefndar ætlar Jakob Reynir ekki að gefast upp. Jakob Reynir Aftur, reynir aftur.
„Útskýringarnar sem ég fékk við þessum fannst mér svolítið þunnar. Það var talað um að enginn hafi heitið atviksorði áður og þetta mætti ekki valda fólki ama. Ég er lögráða og borga skatta. Þetta er mín ákvörðun og mér finnst þetta orðið úrelt að þú megir ekki heita það sem þig langar til,“ segir Jakob Reynir.
Og það verður veisla ef Jakob fær sínu framgengt.
„Þegar þetta gengur í gegn, þá verður skírnarveisla. Það er klárt mál,“ segir Jakob Reynir.
Skírður upp á nýtt?
„Já, skírður upp á nýtt.“
Endurfæddur Jakob Reynir Aftur?
„Já, klárt,“ segir Jakob Reynir og hlær.