Erlent

Taíland skrefinu nær því að leyfa sam­kynja hjóna­bönd

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Frá Pride-göngu í Bangkok.
Frá Pride-göngu í Bangkok. AP Photo/Sakchai Lalit

Taíland tók stórt skref í gær þegar neðri deild þingsins þar í landi samþykkti ný lög, sem heimila samkynja hjónabönd. Efri deild þingsins á enn eftir að taka frumvarpið fyrir og samþykki konungsins.

Nokkuð líklegt er talið að málið verði fullafgreitt fyrir árslok, sem myndi gera Taíland að fyrsta og eina landinu í Suðaustur-Asíu til að heimila samkynja hjónabönd. Taíland hefur verið þekkt fyrir jákvætt viðhorf til samkynja para á svæði þar sem viðhorf til þeirra eru almennt í neikvæðari kanti. 

„Þetta er stórt skref í átt að jafnrétti. Þetta er ekki lækning við öllum heimsins vandamálum en fyrsta skrefið í átt að jafnrétti,“ sagði Danuphorn Punnakanta, þingmaður og formaður þingnefndarinnar sem hafði málið á sínu borði, í ræðu í gær. 

Fjögur hundruð af 415 þingmönnum samþykktu frumvarpið. Með því er lögum um hjónabönd breytt þannig að þeim er lýst sem sambúð tveggja einstaklinga, frekar en konu og karls. Breytingin mun veita samkynja pörum öll sömu réttindin og gagnkynja, sem þau hafa ekki haft hingað til. Þar má nefna samsköttun, að þau geti arfleitt hvort annað, tekið ákvarðanir um læknisþjónustu og svo framvegis. 

Nú þegar eru gildi lög í Taílandi sem segja til um að ekki megi mismuna fólki vegna kynhneigðar og kynvitundar. Landið er því álitið eitt það vingjarnlegasta gagnvart hinsegin fólki í Asíu. 

Þetta er ekki fyrsta skiptið sem tilraun til breytinga á hjúskaparlögum í þessa átt hafa verið gerðar. Fyrri tilraunir hafa mistekist þrátt fyrir mikinn stuðning almennings, en samkvæmt nýlegri könnun voru 96,6 prósent almennings hlynnt breytingunum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×