Erlent

Lokuðu þorpi í leit að svörum um hvarf tveggja ára drengs

Samúel Karl Ólason skrifar
Þetta er ekki Haut-Vernet heldur annað þopr í frönsku Ölpunum.
Þetta er ekki Haut-Vernet heldur annað þopr í frönsku Ölpunum. Getty

Lögregluþjónar lokuðu í gær smáu þorpi í frönsku Ölpunum. Sautján manns, auk lögregluþjóna, hafa verið í þorpinu til að reyna að finan einhver svör um hvað kom fyrir hinn tveggja ára gamla Emile sem hvarf þaðan sporlaust síðasta sumar.

Emile var að gista hjá ömmu sinni og afa í þorpinu Haut-Vernet, þar sem 25 manns búa, í júlí í fyrra þegar hann hvarf á fyrsta degi sumarfrís. Nágrannar sáu hann ganga einan um þorpið seinni part dags þann 8. júlí og hefur ekkert sést til hans síðan.

Samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar var Emile, sem er tæpir níutíu sentímetrar á hæð, í gönguskóm, bol og stuttbuxum. Enginn veit hvert hann var að fara eða hvað varð um hann. Fjölmargir lögregluþjónar og hermenn leituðu Emile og var notast við bæði þyrlur og leitarhunda en án árangurs.

Leitinni var hætt eftir nokkra daga en rannsakendur grunar að Emile hafi verið rænt. Slys er þó talið koma til greina.

Leitað var eftir aðstoð almennings og bárust um níu hundruð ábendingar. Engin þeirra leiddi rannsakendur þó áfram í málinu og það gerði ítarleg yfirferð yfir símagögn úr þorpinu ekki heldur.

AFP segir rannsakendur hafa kallað sautján manns til þorpsins. Þar á meðal eru ættingjar Emile, nágrannar ömmu hans og afa og önnur vitni og vilja þeir reyna að endurskapa hvað gerðist þann 8. júlí í fyrra.

Nágrannar eru sagðir hafa gefið misvísandi upplýsingar um hvað þau sáu og vonast rannsakendur til að geta greitt úr þeim hnút.

Eins og áður segir var þorpinu lokað i gærmorgun og verður það lokað þar til í fyrramálið. Um tuttugu lögregluþjónar hafa stýrt endursköpuninni og hafa drónar verið notaðir til að taka upp það sem gerist á jörðu niðri.

AFP hefur eftir lögmanni afa Emile að fjölskyldan voni að drengurinn sé enn á lífi en sú von minnki dag frá degi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×