Enski boltinn

Newcastle reis upp frá dauðum í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harvey Barnes tryggði Newcastle United sigurinn með tveimur mörkum undir lokin.
Harvey Barnes tryggði Newcastle United sigurinn með tveimur mörkum undir lokin. Getty/Stu Forster

Hamrarnir misstu frá sér frábæra stöðu á St. James Park í hádegisleiknum í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar Newcastle tryggði sér 4-3 sigur á West Ham með því að skora þrjú mörk á lokamínútum leiksins.

Leikurinn var frábær skemmtun, sjö mörk og mikið líf og fjör allan tímann. Harvey Barnes var hetjan því hann skoraði síðustu tvö mörkin eftir að hafa komið inn á sem varamaður á 67. mínútu þegar Newcastle liðið var 3-1 undir.

West Ham var 3-1 yfir í leiknum þegar Newcastle fékk sitt annað víti í leiknum á 75. mínútu. Það kveikti heldur betur í heimamönnum sem höfðu ekki litið allt of vel út lengstum í leiknum.

Alexander Isak skoraði tvö mörk fyrir Newcastle en þau komu bæði úr vítum.

West Ham menn hefðu hoppað upp að hlð Manhester United í sjötta sætinu með sigri og náð ennfremur sjö stiga forskot á Newcastle í töflunni. Nú munar bata einu stigi á þeim, West Ham er í sjöunda sætinu en Newscastle í áttunda sæti.

Newcastle fékk draumabyrjun á sjöttu mínútu þegar Anthony Gordon fiskaði víti og Svíinn Alexander Isak skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni.

West Ham jafnaði á 21. mínútu og þar munaði mestu um frábæra stungusendingu frá Lucas Paqueta. Michail Antonio fékk boltann inn fyrir vörnin og skoraði laglega.

Mohammed Kudus kom síðan West Ham síðan yfir á tíundu mínútu í uppbótatíma í fyrri hálfleik. Lucas Paqueta var fljótur að taka aukaspyrnu og Jarrod Bowen fann Kudus í framhaldinu.

West Ham endaði fyrri hálfleikinn vel og byrjaði þann seinni frábærlega. Bowen skoraði þá þriðja markið eftir að hafa sloppið í gegnum vörnina eftir skyndisókn og sendingu frá Kudus.

Fimmtánda deildarmark Bowen á leiktíðinni. Það leit allt út fyrir útisigur. Newcastle menn vöknuðu þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum.

Anthony Gordon fiskaði aðra vítaspyrnu á 76. mínútu og Alexander Isak fór aftur á punktinn og skoraði aftur af miklu öryggi.

Newcastle menn héldu áfram og tókst síðan að jafna metin í 3-3 með marki frá Harvey Barnes á 83. mínútu. Hann fékk þá stungusendingu frá umræddum Isak.

Barnes var ekki hættur því hann skoraði sigurmarkið á 90. mínútu og kórónaði endurkomu Newcastle í leiknum.

Ótrúlegur endurkomusigur í stórkostlegum fótboltaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×