Enski boltinn

Tor­sótt hjá Tottenham, sex mörk í seinni hálf­leik og jafn­ræði í Skírisskógi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Heung Min-Son fagnaði sigurmarki sínu af mikilli innlifun,
Heung Min-Son fagnaði sigurmarki sínu af mikilli innlifun, Chloe Knott - Danehouse/Getty Images

Fjöldi leikja fór fram í ensku úrvalsdeildinni síðdegis í dag. 

Tottenham lenti í erfiðleikum með Luton en unnu að endingu 2-1. 

Tahith Chong kom Luton Town óvænt yfir strax á 3. mínútu gegn Tottenham. Andros Townsend, fyrrum leikmaður Tottenham, náði þar góðum spretti upp hægri kantinn og kom boltanum fyrir á Ross Barkley, hann áframsendi á Chong sem kláraði færið af öryggi.

Issa Kaboré setti boltann óvart í eigið net í upphafi seinni hálfleiks eftir fyrirgjöf Brennan Johnson og jafnaði leikinn fyrir Tottenham. Luton voru ekki að baki brotnir og komust mjög nálægt því að taka forystuna aftur skömmu síðar eftir hornspyrnu, en Vicario markvörður Tottenham varði vel.

Allt leit út fyrir að leikurinn myndi enda með jafntefli en Heung Min-Son skoraði sigurmarkið fyrir Tottenham á 86. mínútu eftir hraða skyndisókn eftir hornspyrnu Luton hinum megin. Aftur var það eftir fyrirgjöf varamannsins Brennan Johnson sem boltinn endaði í netinu.

Gaf sigur með sjálfsmarki í uppbótartíma

Bournemouth tók á móti Everton og hampaði 2-1 sigri eftir spennandi lokamínútur. 

Heimamenn voru hættulegri aðilinn lengst af í leiknum og uppskáru loksins mark um miðjan seinni hálfleik. Dominic Solanke stangaði boltann í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá varamanninum Lloyd Kelly.

Lokamínútur leiksins voru æsispennandi. Everton jafnaði á 86. mínútu þegar Neto, markvörður Bournemouth, missti boltann frá sér á Beto, framherja Everton, sem setti hann í netið. 

Everton tókst þó ekki að sækja stig því Seamus Coleman setti boltann óvart í eigið net í uppbótartíma.

Sex mörk í seinni hálfleik

Sheffield United komst grátlega nálægt sigri en þurfti að sætta sig við jafntefli gegn Fulham. Lokatölur 3-3 en öll sex mörk leiksins komu í seinni hálfleik. 

Ben Brereton Díaz kom heimamönnum yfir á 58. mínútu, Joao Palhinha jafnaði fyrir gestina örskömmu síðar. Tvö mörk til viðbótar frá Oliver McBurnie og Ben Brereton Díaz komu Sheffield 3-1 yfir. 

Gestirnir gáfust ekki upp. Bobby Reid minnkaði muninn á 86. mínútu og Rodrigo Muniz jafnaði leikinn á þriðju mínútu uppbótartíma. 

Skildu jöfn í Skírisskógi

Crystal Palace heimsótti Nottingham Forest, liðin skildu jöfn að leik loknum, 1-1.

Jean-Phillipe Mateta skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Palace á 10. mínútu eftir frábæran spilkafla hjá liðinu og stoðsendingu frá Eberechi Eze. Eze komst svo sjálfur í gott færi í upphafi seinni hálfleiks en hitti í stöngina og tókst ekki að tvöfalda forystuna.

Christian Wood jafnaði leikinn fyrir Nottingham Forest á 60. mínútu með góðum skalla sem sveif yfir markvörð Palace.

Stöðutöflu ensku úrvalsdeildarinnar má finna hér. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×