Þetta kemur fram í páskakveðju sem Steinunn birti á Facebook-síðu sinni í dag. Steinunn skrifaði skoðanagreinina „Bréf til þjóðarinnar“ á Vísi í vikunni þar sem hún sagðist alvarlega vera að íhuga að bjóða sig fram til forseta.
Í færslunni í dag segist Steinunn vera þakklát fyrir þann stuðning sem hún finnur fyrir og fagnar því hversu margir hafa sýnt embætti forseta áhuga. Þá tiltekur hún hverju hún sé að bíða eftir áður en hún bíður sig fram.
„Ég er ekki að bíða eftir rétta staðnum eða réttu stundinni til að tilkynna framboð. Ég er hinsvegar að bíða eftir því hvort satt sé að sitjandi forsætisráðherra ætli að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Geri hún það, þá býð ég mig fram. Það er loforð,“ skrifar Steinunn í færslu sinni í dag.
Treystir Katrínu ekki fyrir fjöregginu
Steinunn segir að sér fyndist framboð Katrínar bera vott um oflæti og að með því sýndi Katrín þingi, þjóð og öðrum frambjóðendum óvirðingu. Það geti hún ekki sætt sig við.
„Baráttan um Ísland snýst aðallega um íslenska náttúru og auðlindirnar sem eiga að vera sameign þjóðarinnar. Það fjöregg fengum við í arf og okkur ber að skila því heilu til næstu kynslóða.
Nú vegur þyngst að ég treysti ekki Katrínu Jakobsdóttur, að fenginni reynslu, til að gæta þessa fjöreggs okkar. Það er þyngra en tárum taki.
Það vorar og sólin hækkar á lofti. Leyfum okkur að vera bjartsýn og hugrökk,“ skrifar Steinunn að lokum.