Enski boltinn

Hörð gagn­rýni á Haaland: „Eins og leik­maður í D-deild“

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland hefur bókstaflega raðað inn mörkum fyrir Manchester City síðustu tvær leiktíðir en þarf að bæta sig að mati sérfræðinga Sky Sports.
Erling Haaland hefur bókstaflega raðað inn mörkum fyrir Manchester City síðustu tvær leiktíðir en þarf að bæta sig að mati sérfræðinga Sky Sports. Getty/Justin Setterfield

Roy Keane sparaði ekki stóru orðin þegar hann gagnrýndi stjörnuframherjann Erling Haaland eftir markalaust jafntefli Manchester City og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær.

Leikurinn var vægast sagt tíðindalítill og rétt eins og þegar liðin mættust í október þá mistókst Haaland, líkt og öðrum leikmönnum City, að finna leiðina að marki Arsenal.

Norðmaðurinn er enn markahæstur í ensku úrvalsdeildinni, með 18 mörk, eftir að hafa orðið markakóngur í fyrra en Keane telur Haaland þó algjöran meðaljón í ýmsum þáttum leiksins.

„Getustigið hjá honum í almennum leik er svo lágt. Ekki bara í dag,“ sagði Keane sem var í hlutverki sérfræðings hjá Sky Sports.

„Fyrir framan markið er hann sá besti í heiminum en grunnspilamennskan hjá honum er svo döpur. Hann er eins og leikmaður í D-deild [League 2 á Englandi], þannig lít ég á hann. Hann verður að bæta almennan leik sinn og mun gera það á næstu árum,“ sagði Keane.

Micah Richards, annar sérfræðingur Sky, var sömuleiðis ekki hrifinn af frammistöðu Haalands.

„Hann nýtir ekki líkamann og styrk sinn til að halda mönnum frá sér. Hann hefur haldið áfram að skora mörg mörk á þessari leiktíð en maður vill sjá hann bæta sig og hann getur gert betur þegar hann er með mann í bakinu,“ sagði Richards.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×