Enski boltinn

Leicester aftur efst í spennandi bar­áttu um sæti í úr­vals­deild

Sindri Sverrisson skrifar
Jamie Vardy er enn að skora mörk og gæti komist aftur upp í úrvalsdeildina með Leicester.
Jamie Vardy er enn að skora mörk og gæti komist aftur upp í úrvalsdeildina með Leicester. Getty/Mike Egerton

Leicester City kom sér á ný á toppinn í ensku B-deildinni í fótbolta í dag með 3-1 sigri gegn Norwich sem situr í sjötta sæti deildarinnar.

Sigurinn var nauðsynlegur fyrir Leicester sem hafði aðeins unnið einn af síðustu sex deildarleikjum sínum en liðið er núna stigi fyrir ofan Ipswich og tveimur fyrir ofan Leeds, þegar aðeins sjö umferðir eru eftir. Tvö efstu liðin komast upp í úrvalsdeild en liðin í 3.-6. sæti fara í umspil um eitt laust sæti.

Leicester lenti undir eftir tuttugu mínútna leik í dag, þegar Gabriel Sara kom Kanarífuglunum yfir.

Kiernan Dewsbury-Hall jafnaði metin þrettán mínútum síðar og staðan var 1-1 í hálfleik.

Stephy Mavididi kom svo Leicester yfir á 61. mínútu og Jamie Vardy innsiglaði sigurinn í uppbótartíma.

Norwich hafði unnið þrjá leiki í röð og er með 64 stig eftir 40 leiki, í 6. sæti, fjórum stigum fyrir ofan Coventry sem á tvo leiki til góða. Preston og Hull eru einnig skammt undan. Norwich er þremur stigum á eftir WBA, sem á leik til góða, og tíu stigum á eftir Southampton sem er með 74 stig eftir 37 leiki og gæti blandað sér í toppbaráttuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×