Enski boltinn

Jón Daði skoraði tvö og gæti farið upp

Sindri Sverrisson skrifar
Jón Daði Böðvarsson er með Bolton í baráttu um að komast upp í næstefstu deild Englands.
Jón Daði Böðvarsson er með Bolton í baráttu um að komast upp í næstefstu deild Englands. Getty/Dave Howarth

Jón Daði Böðvarsson átti sinn þátt í 5-2 sigri Bolton á Reading í ensku C-deildinni í fótbolta í dag og er Bolton í harðri baráttu um að komast upp í næstefstu deild.

Jón Daði skoraði tvö marka Bolton í leiknum, það þegar liðið komst í 3-1 snemma í seinni hálfleik en seinna seint í uppbótartíma, og liðsfélagi hans Aaron Collins skoraði þrennu.

Sigurinn þýðir að Bolton, sem er í 3. sæti, er með 78 stig og aðeins þremur stigum á eftir Derby sem er í 2. sæti, en tvö efstu liðin komast beint upp í næstefstu deild. Derby mætir toppliði Portsmouth á morgun en Portsmouth er með 86 stig.

Eftir þann toppslag mun Derby aðeins eiga fjóra leiki eftir, en Portsmouth og Bolton fimm. Fari svo að Bolton missi af efstu tveimur sætunum er ljóst að liðið færi í fjögurra liða umspil um síðasta lausa sætið í næstefstu deild.

Svekkjandi tap hjá Sverri

Á sama tíma var Sverrir Ingi Ingason í liði Midtjylland sem tapaði 3-2 á heimavelli gegn Nordsjælland, og missti því af tækifæri til að fara aftur á toppinn í dönsku úrvalsdeildinni.

Midtjylland er áfram með 48 stig en nú tveimur stigum á eftir Bröndby sem vann FC Kaupmannahöfn fyrr í dag með dramatískum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×