Enski boltinn

Styðja við Phillips eftir að hann sýndi á­horf­anda fingurinn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Það var ekki vísifingur sem Kalvin Phillips beindi að áhorfanda á laugardaginn.
Það var ekki vísifingur sem Kalvin Phillips beindi að áhorfanda á laugardaginn. West Ham United FC/Getty Images

David Moyes, þjálfari West Ham, sagði félagið ætla að styðja við bakið á Kalvin Phillips eftir að hann reiddist stuðningsmanni liðsins á laugardag.

Atvikið má sjá á myndskeiðinu hér fyrir neðan. Þar gefur Phillips áhorfanda fingurinn eftir að hann kallaði leikmanninn „gagnslausan“.

Phillips hefur átt erfitt uppdráttar síðan hann fór frá Leeds til Manchester City árið 2022. Leiktími hans þar var mjög takmarkaður og Phillips fór á láni til West Ham í lok janúar á þessu ári.

Í fyrsta leik fyrir West Ham gaf Phillips boltann frá sér sem leiddi til marks strax á 3. mínútu gegn Bournemouth. Hann kom inn sem varamaður í 1-3 á laugardag gegn Newcastle, gaf vítaspyrnu nokkrum mínútum síðar sem blés lífi í Newcastle og leiddi til endurkomu þeirra og 4-3 sigurs.

West Ham hefur ekki tjáð sig opinberlega um atvikið en David Moyes, þjálfari liðsins, sagði félagið ætla að styðja Phillips á erfiðum tímum á hans ferli og kallaði eftir því að stuðningsmenn gerðu slíkt hið sama.

„Kalvin er mannlegur, hann þarf á stuðningi fólksins að halda, við munum styðja hann. Við þurfum að fá áhorfendur á bakvið hann líka því Kalvin er frábær leikmaður og ég trúi því að hann geti enn gert góða hluti hér.“ sagði þjálfarinn Moyes.

West Ham mætir næst Tottenham í Lundúnaslag á morgun, þriðjudag.


Tengdar fréttir

Phillips genginn í raðir West Ham

Enski miðjumaðurinn Kalvin Phillips er genginn í raðir West Ham á láni frá Englandsmeisturum Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×