Innlent

Af neyðarstigi á hættu­stig vegna eld­gossins

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Drónamynd af eldgosinu sem Vilhelm ljósmyndari Vísis tók í lok mars. 
Drónamynd af eldgosinu sem Vilhelm ljósmyndari Vísis tók í lok mars.  Vísir/Vilhelm

Ríkislögreglustjóri, í samráði við Lögreglustjórann á Suðurnesjum, hefur ákveðið að fara af neyðarstigi niður á hættustig Almannavarna vegna eldgossins á Reykjanesskaga. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Almannavarna. Neyðarstigi var lýst yfir laugardagskvöldið 16. mars þegar eldgos hófst milli Hagafells og Stóra Skógfells.

Í tilkynningunni segir að þrátt fyrir að eldgosið haldi áfram hafi staðan haldist óbreytt um nokkurt skeið. Ekki hefur mælst landris á svæðinu síðustu daga. 

Þá hafi ýmsar áskoranir, eins og gróðureldar í kringum hraunbreiðuna og gasmengun, verið viðvarandi síðustu daga en mengunin hefur borist í byggð á Suðurnesjum.

„Áfram verður fylgst með gróðureldum við eldgosið og brugðist við þegar þarf, einnig hefur verið farið í fyrirbyggjandi aðgerðir. Almenningur getur bæði fylgst með gasmengunarspá á vef Veðurstofunnar og loftgæðum á vefnum loftgaedi.is,“ segir í tilkynningunni. 


Tengdar fréttir

Ekkert ferðamannagos

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum segir að ferðamönnum verði ekki hleypt að gosstöðvunum við Sundhnúk á næstunni. Nokkur áhugi er meðal ferðamanna að komast að gosinu. Þeir hafa bókað til þess þyrluferðir og verið snúið við þegar þeir hafa reynt að komast inn á lokað svæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×