Enski boltinn

Tvö mörk undir lokin tryggðu Liver­pool dýr­mætan sigur

Aron Guðmundsson skrifar
Alexis MacAllister skoraði eitt marka Liverpool  
Alexis MacAllister skoraði eitt marka Liverpool   Vísir/Getty

Liverpool tyllti sér aftur á top ensku úrvalsdeildarinnar með 3-1 sigri á botnliði Sheffield United á Anfield í kvöld. 

Fyrir leik var Liverpool talið mun sigurstranglegri aðilinn og gat með sigri á botnliði Sheffield United tyllt sér aftur á topp ensku úrvalsdeildarinnar.

Leikurinn byrjaði vel fyrir heimamenn því strax á 16.mínútu kom Darwin Nunez Liverpool yfir. Reyndist það eina mark Liverpool í fyrri hálfleik. Yfirburðir heimamanna miklir en aðeins einu marki yfir getur allt gerst.

Og það sannaði sig á 58.mínútu þegar að Conor Bradley varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark fyrir Liverpool og staðan orðin 1-1.

Það var hins vegar nægu tími eftir af leiknum fyrir heimamenn til þess að snúa stöðunni sér í vil. Það dró til tíðinda á 76.mínútu þegar að Alexis MacAllister kom Liverpool aftur yfir eftir stoðsendingu frá Luis Diaz.

Það var síðan Cody Gakpo sem innsiglaði 3-1 sigur Liverpool með vel útfærðu skallamarki undir lok leiks eftir frábæra stoðsendingu Andy Robertson.

Lokatölur á Anfield 3-1 sigur Liverpool. Úrslit sem koma lærisveinum Jurgen Klopp aftur upp í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar þar sem liðið situr með 70 stig.

Arsenal situr í 2.sæti deildarinnar með 68 stig og þá er Manchester City í þriðja sæti með 67 stig. Sheffield United er sem fyrr á botni deildarinnar með 16 stig.

Liverpool heimsækir erkifjendur sína í Manchester United í næstu umferð deildarinnar á sunnudaginn kemur á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×