Erlent

Dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir að út­vega hryðju­verka­manni byssu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kona leggur blóm að minnisvarða um látnu.
Kona leggur blóm að minnisvarða um látnu. epa/Patrick Seeger

Maður hefur verið dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir að hafa útvegað Cherif Chekatt skotvopn, sem hann notaði til að myrða fimm manns á jólamarkaði í Strasbourg í Frakklandi árið 2018.

Audrey Mondjehi, 42 ára, hafði deilt fangaklefa með Chekatt og var ákærður fyrir að hafa aðstoðað hann í aðdraganda árásarinnar. Mondjehi hélt því fram við réttarhöldin að hann hefði ekki vitað hvað Chekatt hefði haft í hyggju og að hann væri mjög hryggur vegna árásarinnar.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að það hefði ekki tekist að sýna fram á að Mondjehi hefði vitað hvað til stóð. Þannig væri ekki hægt að dæma hann fyrir að hafa átt aðkomu að hryðjuverki.

Tveir aðrir fengu styttri dóma fyrir að aðstoða Chekatt en einn var sýknaður.

Chekatt var á lista yfirvalda yfir einstaklinga sem voru taldir möguleg ógn við þjóðaröryggi þegar hann lét til skarar skríða 11. desember 2018, vopnaður skotvopni og eggvopni. Skaut hann á fólk af handahófi og hrópaði „Allahu Akbar“.

Fimm létust í árásinni og ellefu særðust.

Chekatt tókst að koamst undan lögreglu með því að stökkva inn í leigubifreið en var skotinn til bana af lögreglu eftir tveggja sólahringa leit og eftirför.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×