Nágrannaliðin Inter og AC Milan frá Mílanóborg hafa hafa nokkra yfirburði á Ítalíu í vetur. Fyrir leik AC Milan og Lecce í dag var Inter með fjórtán stiga forskot á AC Milan á toppi deildarinnar og Milan var síðan með sex stiga forskot á Juventus sem situr í 3. sæti.
Sigur Milan í dag var öruggur. Bandaríkjamaðurinn Christian Pulisic kom heimamönnum í 1-0 á 6. mínútu eftir sendingu Samuel Chukwueze og hinn síungi Frakki Olivier Giroud bætti öðru marki við á 20. mínútu og nú var það Yacine Adli sem lagði upp. Undir lok fyrri hálfleiks fékk Nikola Krstovic í liði Lecce svo rautt spjald og brekka gestanna orðin ansi brött.
Í hálfleik var staðan 2-0 en Portúgalinn Rafael Leao gerði út um leikinn á 57. mínútu þegar hann skoraði eftir aðra stoðsendingu frá Adli.
AC Milan minnkar því forskot Inter niður í ellefu stig og er nú níu stigum á undan Juventus í 2. sæti deildarinnar. Inter mætir Udinese á útivelli á mánudagskvöld.