Fréttamaður ræddi við almenning í landinu um málið, en hann hafði skiptar skoðanir á því. Viðtölin má sjá á annarri mínútu í myndskeiðinu hér að neðan.
„Rosalega vel, alveg rosalega vel. Beið eftir þessu,“ segir María Haraldsdóttir Bender, aðspurð hvernig henni litist á framboð Katrínar.
„Bara mjög vel. Ætla að kjósa hana. Pottþétt,“ segir Sigurður Vilhjálmsson. Brynhildur Einarsdóttir tekur í sama streng. „Hún er alveg gríðarlega öflugur stjórnmálamaður og ég tel að það sé kominn tími á að það sé kona sem verður forseti og við getum verið stolt af Katrínu,“ segir hún.
Ekki eru allir sammála þeim þremur, meðal annars hann Guðjón Jósef Baldursson.
„Mér finnst það pínulítið ábyrgðarleysi að stökkva beint úr forsætisráðherrastólnum. Og ef hún er að hugsa sér að gera eitthvað af viti þá er hún á réttum vettvangi.“
Búist við að Sigurður taki við af Katrínu
Þá eru líka skiptar skoðanir á hvern almenningur vill sjá í forsætisráðherrastólnum.
„Ég geri ráð fyrir að Sigurður Ingi taki við því. Mér fyndist það eðlilegast,“ segir Sigurður. Brynhildur segist hins vegar ekki hafa skoðun á því. „Vegna þess að hvernig pólitíkin getur þróast þá getur allt breyst á tveimur tímum, og svo aftur á næstu tveimur tímum,“ segir hún.
„Helst Bjarna Ben en ég held að það gangi ekki upp,“ segir Gunnar nokkur Pálsson.
Hver heldurðu að taki við?
„Ætli það verði ekki hann, Framsóknarmaður.“
Guðjón Jósef tekur í allt annan streng. „Einhvern nýjan. Einhvern sem er ekki í ríkisstjórninni. Ég væri til í að sjá nýja ríkisstjórn.“
Þannig að þú myndir vilja ganga til kosninga sem allra fyrst?
„Heldur betur. Algjörlega.“
Vilja klára kjörtímabilið
Brynhildur telur að vænlegast yrði að klára kjörtímabilið. „Út frá stjórnarskránni þá eigum við að kjósa á fjögurra ára fresti. Og ég tel að við eigum að halda því til streitu.“
Sigurður er sammála. „Alveg tvímælalaust. Ég held það væri bara skandall að gera það ekki,“ segir hann. María er á sama máli. „Ég sé enga ástæðu til þess að fara að kjósa. Það bara klárast. Nema ef eitthvað óvænt komi upp á.“
Er þetta ekki óvænt?
„Jú, en þetta kostar ekki það að það eigi að fara að kjósa.“