Fótbolti

Stuðnings­menn Roma söfnuðu fyrir sekt vegna rottufánans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gianluca Mancini veifar rottufánanum.
Gianluca Mancini veifar rottufánanum. getty/Matteo Ciambelli

Það tók ekki langan tíma fyrir stuðningsmenn Roma að safna fyrir sekt sem Gianluca Mancini, leikmaður liðsins, var dæmdur til að greiða vegna atviks eftir borgarslaginn gegn Lazio.

Mancini skoraði eina mark leiksins þegar Roma og Lazio mættust í ítölsku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Eftir leikinn ákvað Mancini að strá salti í sár Lazio-manna. Hann fagnaði sigrinum nefnilega með því að veifa fána í litum Lazio (bláum og hvítum) með mynd af rottu á.

Fyrir það fékk ítalski landsliðsmaðurinn fimm þúsund evra sekt. Það jafngildir 754 þúsund íslenskra króna.

Stuðningsmaður Roma, Lorenzo Contucci, stofnaði í kjölfarið Go Fund Me síðu til að safna fyrir sektinni. Og það tók ekki langan tíma. Sólarhring eftir að söfnunin var sett á laggirnar höfðu safnast 5900 evrur. Ef Mancini þiggur ekki upphæðina rennur hún til góðgerðamála.

Roma er í 5. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar en liðinu hefur gengið allt í haginn eftir að Daniele De Rossi tók við því af José Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×