Skoðun

Um sjálf­stæði þjóðar

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir skrifar

Forsetakosningar á Íslandi eru nú pólitískari en áður hefur þekkst.

Forsætisráðherra í óvinsælli ríkisstjórn hefur gefið kost á sér í embætti forseta Íslands. Einhverjir undrast, öðrum finnst þetta gott og blessað, aðrir fagna.

Nú er sestur í valdamesta embætti landsins sá stjórnmálamaður sem minnst trausts nýtur samkvæmt skoðanakönnunum og sem tæplega 42.000 manns hafa lýst vanþóknun sinni á. Að þekkja sinn vitjunartíma reynist mörgum ómöulegt.

Á Alþingi var í vikunni lögð fram vantrauststillaga á nýja ríkisstjórn. Stjórnarandstaðan gengdi þar sjálfsagðri skyldu sinni fyrir hönd almennings en hafði ekki meirihluta þingsins fyrir og uppskar í kaupbæti vanþóknun margra fyrir það eitt að sinna skyldu sinni.

Öfugsnúið er nú allt. Þingmenn okkar þjóðkjörnir, of margir, sýna of sjaldan sjálfstæði, kjósa einungis með flokkshjartanu og ekki í takt við hjörtu fólksins. Þetta er vandinn.

Ísland er fjöregg okkar. Áherslur núverandi forsætisráðherra sem hann hefur ítarlega kynnt fyrir þjóðinni, snúast svo ekki er um að villast, ekki um að vernda kjör og líf landsmanna, ekki um að tryggja lífríki og náttúru Íslands og ekki um að axla sammannlega ábyrgð þá sem allar ríkar þjóðir bera.

Hann talar opinskátt um áherslur sínar. Það má hann eiga. Hann á líka stuðning fyrrum forsætisráðherra vísann nái hún kjöri í embætti forseta Íslands.

Sveinn Björnsson okkar fyrsti forseti, krafðist þess að þjóðin fengi að kjósa forseta í beinni kosningu. Málsvari þjóðarinnar yrði að vera óháður aðili sem gæti veitt þinginu aðhald fyrir fólkið í landinu.

Um sjálfstæði og velferð þjóðar gegn ofríki stjórnvalda snúast forsetakosningar 2024.

Höfundur er leikkona og forsetaefni.




Skoðun

Sjá meira


×