Enski boltinn

Segir að Ten Hag sé búinn að vera

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Eriks ten Hag hjá Manchester United.
Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Eriks ten Hag hjá Manchester United. getty/Nigel French

Stjórnartíð Eriks ten Hag hjá Manchester United er senn á enda. Þetta segir Chris Sutton, álitsgjafi hjá BBC.

United komst í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar, annað árið í röð, eftir sigur á B-deildarliði Coventry City eftir vítaspyrnukeppni á sunnudaginn. United var 3-0 yfir þegar tuttugu mínútur voru eftir en missti forskotið niður. Coventry-menn héldu svo að þeir hefðu skorað sigurmark í uppbótartíma framlengingarinnar en það var dæmt af vegna afar tæprar rangstöðu.

„Ég veit ekki hvað tekur við hjá Ten Hag eftir þetta,“ sagði Sutton á BBC. „Þetta eru endalokin fyrir hann. Það er engin leið fyrir hann til baka úr þessu.“

Sutton setti spurningarmerki við skiptingarnar sem Ten Hag gerði í leiknum gegn Coventry en liðið missti tökin eftir að hinir ungu og efnilegu Alejandro Garnacho og Kobbie Mainoo voru teknir af velli.

„Eftir leikinn horfir fólk á skiptingarnar sem Ten Hag gerði. En meira að segja hann hefði ekki getað séð þetta fyrir. Þeir voru í bílstjórasætinu,“ sagði Sutton.

„Frammistaðan eftir sjötíu mínútur var lýsandi fyrir það hvernig United hefur spilað á tímabilinu. Þeir misstu tökin og náðu þeim ekki og það hefur verið vandamál allt tímabilið.“

United er í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og mætir botnliði Sheffield United annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×