Greint var frá andlátinu á mbl í gær. Þar segir að Pétur hafi lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1949 og svo tekið próf í frönsku og menningarsögu frá Sorbonne-háskóla í París árið 1950, diplómanám í stjórnmálafræði frá Háskólanum í Grenobleárið 1952 og stundað nám í hagfræði, rekstrarfræði, bókhaldi og sögu við Kaupmannahafnarháskóla 1953 til 1954.
Hann starfaði hjá Evrópuráðinu í Strassborg á árunum 1955 til 1964 og var þá skipaður framkvæmdastjóri Sjónvarpsins. Hann var þá einnig staðgengill útvarpsstjóra í fjarveru hans þar til hann tók við stöðu útvarpsstjóra árið 1996. Hann hætti svo störfum hjá Útvarpinu fyrir aldurs sakir árið 1997.
Fram kemur að Pétur hafi verið fyrsti starfsmaður Sjónvarpsins og séð um að skipuleggja allt starf þess framan af.
Pétur var einnig mjög virkur í félagslífi og átti þannig sæti í stjórn Rotaryklúbbsins í Reykjavík, Austurbæ, á árunum 1975 til 1980 og var forseti klúbbsins á árunum 1978 til 1979. Þá var hann formaður Nordvision, samtaka norrænnar sjónvarpsstöðva 1988 til 1991 auk þess að sitja stjórn Norræna sjónvarpssjóðsins frá stofnun hans 1987 og var varaformaður stjórnar hans frá 1991 til starfsloka.
Pétur var sæmdur fálkaorðunni árið 2021 fyrir forystustörf á vettvangi íslenskra fjölmiðla.
Eiginkona Péturs var Stella Sigurleifsdóttir, en hún lést árið 2003. Þau eignuðust fjögur börn, sjö barnabörn og sex barnabarnabörn.