Meint brot Ivanov eru sögð tengjast framkvæmdum við viðhald á byggingum varnarmálaráðuneytisins. Ivanov sá um innviðamál ráðuneytisins. Hann gæti átt yfir höfði sér fimmtán ára fangelsi. Sergei Borodin, sem er sagður vinur Ivanov, kom einnig fyrir dómara sakaður um sambærilega glæpi.
Breska ríkisútvarpið BBC segir að ákvæði laga sem lögregla vísaði til eiga við þegar grunur leikur á að mútur hafi numið meira en milljón rúblna, jafnvirði rúmrar einnar og hálfrar milljónar króna.
Ivanov er talinn bandamaður Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra. Þeir hafa unnið saman um árabil, meðal annars í héraðsstjórn Moskvu á sínum tíma. Ivanov hefur starfað fyrir varnarmálaráðuneytið frá árinu 2016. Hann er einn tólf aðstoðarvarnarmálaráðherra, að sögn AP-fréttastofunnar.
Sagður lifa hátt og hagnast á framkvæmdum í Maríupol
Ásakanir um mútuþægni á hendur Ivanov eru ekki nýjar af nálinni. Samtök Alexei Navalní heitins sökuðu Ivanov um spillingu í tengslum við framkvæmdir á hernumdum svæðum í Úkraínu árið 2022. Hann hafi meðal annars hagnast á byggingaframkvæmdum í hafnarborginni Maríupol sem Rússar svo gott sem lögðu í rúst með loftárásum.
Þá var Ivanov sagður lifa hátt með lúxusferðum erlendis, íburðarmiklum veislum og glæsihýsum. Stjórnarandstæðingar hafa jafnframt haldið því fram að eiginkona Ivanov hafi skilið við hann sumarið 2022 og komist þannig undan refsiaðgerðum vestrænna ríkja gegn honum. Hún lifi enn í velllystingum.
Dmitrí Peskov, talsmaður ríkisstjórnarinnar, hafnaði fréttum rússneskra fjölmiðla um að spillingarákærunni á hendur Ivanov sé ætlað að komast hjá stærra hneykslismáli vegna meintra landráða hans.
„Það er mikið af flökkusögum. Við verðum að treysta á opinberar upplýsingar,“ sagði Peskov.