„Ég rétt slapp. Þetta eru kannski 16 hundruð meðmæli. Sem betur fer byrjaði ég ekki seinna,“ sagði Ásdís Rán, Ísdrottningin sjálf, en hún mætti niður í Hörpu ásamt fríðu föruneyti. Heimir Már Pétursson fréttamaður tók hana tali og spurði hvert væri hennar erindi, hvers vegna hún hafi ákveðið að blanda sér í þennan leik?
„Ég held bara að ég hafi fengið alveg rosalega góða þjálfun erlendis, ég hef verið í hálfgerðu ambassador-starfi, og hef verið að kynna land og þjóð út um allan heim í viðtölum. Já, ég held að ég sé mjög hæf að taka að mér þetta starf.“
En hvað hefurðu fram að færa?
„Heyrðu, það verður… ég ætla að fara á fulla ferð í góðgerðarmál. Mig langar til að auðvelda fólki á Íslandi lífið, koma til móts við barnafólk, eldra fólkið og líka unga fólkið sem vantar húsnæði og svoleiðis.“
Forseti hefur kannski ekki ákvörðunarvald í þeim efnum en hann kemur við sögu við stjórnarmyndun, ef það er stjórnarkreppa – treystirðu þér til þess?
„Að sjálfsögðu. Ég er kona með kjark. Ég get það fyllilega. Og ég get líka allt hitt, ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna.“
Neinei, ég er ekki að segja að þú getir það ekki. Ég er bara að tala um þessi stóru verkefni sem geta fylgt forsetaembættinu ef illa gengur í stjórnmálunum.
„Að sjálfsögðu. Ef ég get flogið þremur gerðum af þyrlum þá get ég tekið ákvörðun fyrir þjóðina. Það er alveg víst.“
Þannig að þú kemur hér með þitt framboð og leggur galvösk af stað í kosningabaráttuna?
„Já, ég geri það.“