Fótbolti

Titilbaráttan endan­lega úti eftir tap Söru og stallna

Valur Páll Eiríksson skrifar
Söru og stöllum gekk ekki sem skyldi í kvöld.
Söru og stöllum gekk ekki sem skyldi í kvöld. Getty

Sara Björk Gunnarsdóttir lék allan leikinn fyrir Juventus sem tapaði 2-0 á heimavelli fyrir Internazionale í ítölsku kvennadeildinni í kvöld. Titilbaráttunni er gott sem lokið hjá Túrínarliðinu.

Sara spilaði allan leikinn á miðjunni í tapi kvöldsins en þær Elisa Polli og Haley Bugeja skoruðu mörk gestanna frá Mílanó.

Juventus hefur elst við topplið Roma undanfarnar vikur en úrslitin þýða að þær svarthvítu fjarlægjast toppinn enn frekar.

Þegar fjórar umferðir eru eftir er Roma með ellefu stiga forskot og því aðeins tímaspursmál hvenær Rómverjar innsigla titilinn. Vinni liðið Sassuolo á miðvikudaginn kemur tryggja þær sér ítalska meistaratitilinn.

Roma er með 61 stig á toppnum, Juventus með 50 í öðru en heil tíu stig í viðbót eru niður í þriðja sætið hvar Alexandra Jóhannsdóttir og stöllur hennar frá Flórens sitja. Inter er í fimmta sæti með 30 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×