Fótbolti

Ís­lendingarnir nálgast fallið

Valur Páll Eiríksson skrifar
Guðlaugur Victor lagði upp en það dugði skammt.
Guðlaugur Victor lagði upp en það dugði skammt. Getty

Guðlaugur Victor Pálsson lagði upp mark í leik Eupen í belgísku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld en það dugði skammt í 2-1 tapi. Liðið nálgast fall úr deildinni.

Guðlaugur Victor spilaði allan leikinn í miðri vörn Eupen í leik kvöldsins gegn Charleroi. Andstæðingar kvöldsins eru efstir í fjögurra liða fallhluta deildarinnar og löngu sloppnir frá fallinu.

Oday Dabbagh og Antoine Bernier skoruðu tvö mörk fyrir gestina sem leiddu 2-0 í hálfleik í Eupen.

Undir lok leiks lagði Guðlaugur upp mark fyrir pólska framherjann Bartosz Bialek en nær komust þeir ekki. 2-1 tap niðurstaðan.

Eupen er ásamt Kortrijk, sem þjálfað er af Frey Alexanderssyni, í öðru tveggja fallsæta. Bæði lið eru með 25 stig.

Þar fyrir ofan er Molenbeek með 30 stig, fimm stigum ofar. Sex stig eru í pottinum fyrir Eupen og þarf liðið því að vinna þá tvo leiki sem það á eftir og samhliða því að treysta á að önnur úrslit verði liðinu hliðholl.

Kortrijk verður að vinna Molenbekk í leik liðanna á sunnudaginn en Íslendingaliðin tvö mætast svo innbyrðis þann 5. maí í úrslitaleik milli þeirra um hvort Íslendingaliðanna fellur, ef þau fara ekki bæði niður.

Alfreð Finnbogason var utan hóps hjá Eupen í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×