Á föstudag var greint frá því að Maríu Sigrúnu hafi verið rekin úr ritstjórnarteymi Kveiks og að innslag sem hún vann fyrir þáttinn og átti að vera sýnt í lokaþætti Kveiks þennan veturinn hafi aldrei farið í loftið. María Sigrún sagði Ingólf Bjarna Sigfússon, ritstjóra Kveiks, hafa sagt við sig að hæfileikar hennar lægju ekki á sviði rannsóknarblaðamennsku en hún væri hins vegar frábær fréttalesari.
Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri fréttastofu RÚV birti svo yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni þar sem hann sagði þáttinn einfaldlega ekki hafa verið tilbúinn til að fara í loftið á þriðjudag. María Sigrún gaf lítið fyrir þá útskýringu og sagði að auðvelt hefði verið að klára þáttinn ef vilji hefði verið fyrir hendi hjá samstarfsmönnum hennar.
Alls ekki starfsmannamál
Ögmundur birti færslu á vefsíðu sinni í dag þar sem hann segir að ef þátturinn hafi ekki verið tilbúinn hafi það ekki verið rétt að reka Maríu Sigrúnu úr teyminu heldur frekar fresta umfjölluninni hávaðalaust. Þá segir hann málið ekki vera „starfsmannamál“ líkt og Heiðar Örn lýsti í færslu sinni.
„Því fer fjarri að þetta sé fyrst og fremst starfsmannamál. Þvert á móti þarf að fá úr því skorið hvort hér sé á ferðinni tilraun til ritskoðunar og þöggunar. Þetta þarf að fá upplýst,“ segir Ögmundur.
Vill afsökunarbeiðni
Hann segir morgunljóst að um sé að ræða grófa ærumeiðingu um Maríu Sigrúnu að láta það „fylgja með sem klapp á kollinn þegar hún er rekin á dyr, að hún lesi fréttirnar vel og eigi ekki að ætla sér meira en hún hafi burði til.“
„Fréttastofunni ber að biðja Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur afsökunar og reyndar einnig okkur sem eigum þessa fréttastofu og höfum þá menn í vinnu sem ekkert segjast vilja við okkur tala,“ segir Ögmundur.