Erlent

Mót­mælendur og gagnmótmælendur tókust á

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Tjaldbúðir til stuðnings Palestínu hafa risið við háskóla víðs vegar um Bandaríkin.
Tjaldbúðir til stuðnings Palestínu hafa risið við háskóla víðs vegar um Bandaríkin. AP/Jae C. Hong

Bandarískir stúdentar hafa mótmælt stríðsrekstri Ísraelsmanna á Gasa af miklum móði undanfarnar vikur og hafa tjaldbúðir risið við háskóla um landið allt. Snemma morguns í dag sauð upp úr í einum slíkum tjaldbúðum sem reistar hafa verið við UCLA-háskóla í Kaliforníu þegar gagnmótmælendur gerðu tilraun til að rífa búðirnar niður.

Myndefni frá AP-fréttaveitunni af vettvangi sýnir mótmælendur beggja megin munda spýtnabrak en aðrir spjöld eða regnhlífar til að skýla sér. Sprengdir voru flugeldar og aðskotahlutum grýtt á beggja vegu.

Klippa: Mótmælendur og gagnmótmælendur takast á í Kaliforníu

Stjórnendur háskólans höfðu fáeinum tímum áður lýst því yfir að tjaldbúðirnar hefðu verið ólöglega reistar og stríddu gegn reglum skólans. Hópur gagnmótmælenda svöruðu kalli stjórnenda og kom svartklæddur á vettvang með hvítar grímur. Sumir gerðu tilraun til að komast inn í búðirnar en mótmælendurnir mynduðu vegg úr regnhlífum og sveifluðu að þeim heimagerðum bareflum auk þess sem piparúða var beitt á gagnmótmælendur sem hættu sér of nálægt varnarveggnum.

Eftir um tvo tíma af átökum kom lögregla á svæðið klædd í óeirðabúnað og hófu gagnmótmælendur þá að tínast í burtu. Þó héldu átök áfram við búðirnar í fleiri klukkustundir þrátt fyrir viðveru lögreglu.

Tugir handteknir og vísað úr námi

Tugir háskólanema hafa verið handteknir eða vísað úr námi vegna þátttöku þeirra í slíkum mótmælum og kennsla hefur verið lögð niður víðs vegar um Bandaríkin. Reuters greinir frá því að tugir mótmælenda sem setið höfðu um kennslubyggingu í Columbia-háskóla hefðu verið handteknir þegar lögreglumenn komust inn í bygginguna um glugga á annarri hæð. Tjaldbúðir sem risið höfðu þar voru rýmdar og tjöldin fjarlægð.

Mary Osako, vararektor UCLA-háskóla segir stjórnendum skólans bjóða við ofbeldinu.

„Hræðilegt ofbeldi átti sér stað á tjaldbúðunum í kvöld og við leituðum strax til lögreglu fyrir aðstoð. Slökkvilið og sjúkralið er á vettvangi. Okkur býður við þessu tilgangslausa ofbeldi og því verður að ljúka,“ segir hún í tilkynningu.

Kröfur mótmælendanna eru meðal annars að bandarískir háskólar hætti að stunda viðskipti við ísraelsk fyrirtæki eða fyrirtæki sem stutt hafa stríðsrekstur Ísraela á Gasa á einn eða annan hátt. Ekki liggur fyrir hversu margir særðust í átökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×