Fótbolti

Mark dæmt af Bjarka og dramatík hjá Alexöndru

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Steinn Bjarkason hélt hann hefði skorað gegn Catanzaro í dag.
Bjarki Steinn Bjarkason hélt hann hefði skorað gegn Catanzaro í dag. getty/Andrea Iommarini

Bjarki Steinn Bjarkason og félagar í Venezia töpuðu á grátlegan hátt fyrir Catanzaro, 3-2, í ítölsku B-deildinni í dag. Fyrir leikinn hafði Venezia unnið þrjá sigra í röð.

Bjarki lék allan tímann á vinstri kantinum hjá Feneyjaliðinu. Hann skoraði á 29. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Venezia missti mann af velli með rautt spjald á 57. mínútu, skömmu eftir að hafa komist í 1-2. Catanzaro jafnaði á 59. mínútu og skoraði svo sigurmark úr vítaspyrnu þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Mikael Egill Ellertsson kom inn á sem varamaður á 71. mínútu í liði Venezia sem er í 3. sæti deildarinnar. Tvö efstu liðin fara beint upp í úrvalsdeildina liðin í sætum 3-8 fara í umspil.

Hjörtur Hermannsson lék ekki með Pisa sem tapaði fyrir Cremonese, 2-1, á útivelli. Pisa er í 11. sæti deildarinnar.

Þá kom Alexandra Jóhannsdóttir inn á sem varamaður og lék síðasta hálftímann þegar Fiorentina gerði 2-2 jafntefli við Inter í úrslitakeppni efri hluta ítölsku úrvalsdeildarinnar.

Alexandra og stöllur hennar tryggðu sér jafntefli með marki úr vítaspyrnu á sjöttu mínútu í uppbótartíma.

Þetta var þriðja jafntefli Fiorentina í röð en liðið er í 3. sæti deildarinnar. Átta stig eru upp í 2. sætið og átta stig niður í það fjórða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×