Erlent

Tuga enn saknað og 55 látnir

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Vegir, brýr og aðrir innviðir auk fjölda heimila hafa orðið fyrir barðinu á flóðunum. 
Vegir, brýr og aðrir innviðir auk fjölda heimila hafa orðið fyrir barðinu á flóðunum.  EPA

Að minnsta kosti 55 hafa látið lífið eftir að hamfararigning reið yfir sunnanvert Rio Grande do Sul-ríki í Brasilíu í vikunni. Hátt í áttatíu manns er enn saknað. 

Almannavarnir í Rio Grande do Sul segja 74 enn saknað og að meira en 69 þúsund manns hafi þurft að flýja heimili sín. Þá hafi flóðin sem mynduðust síðustu daga í kjölfar óveðursins haft áhrif á nærri tvo þriðju þeirra 497 borga sem tilheyra ríkinu. 

Reutrs hefur eftir Almannavörnum að verið væri að rannsaka sjö dauðsföll til viðbótar í tengslum við flóðin. 

Vegir og aðrir innviðir urðu fyrir barðinu á flóðunum auk þess sem rigningarnar hafa hrundið af stað aurskriðum. Þá brast stór stífla við vatnsaflsvirkjun. Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum er hætta á að fleiri stíflur bresti vegna flóðanna. 

Eduardo Leite ríkisstjóri Rio Grande do Sul segir að þörf sé á „Marshalláætlun“ til þess að hægt verði að koma lífinu í borginni aftur í fastar skorður.

Veðurfræðingar búast við áframhaldandi rigningu í norður- og norðausturhluta ríkisins, en umfang hennar virðist fara minnkandi. Þrátt fyrir það er búist við áframhaldandi hárri vatnshæð í ám á svæðinu. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×