Stemmir þetta við niðurstöður skoðanakannana sem benda til þess að stefni til stórsigurs Verkamannaflokksins undir forystu Keir Starmer í komandi þingkosningum. Þær verða haldnar í síðasta lagi í janúar á næsta ári en fulltrúar Verkamannaflokksins hafa hvatt Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, til að flýta fyrir þeim í ljósi aðstæðna.
Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna og fulltrúi Verkamannaflokksins, tryggði sér einnig sitt þriðja kjörtímabil í því embætti. Hann bar sigur úr býtum með meira en 276 þúsund atkvæðum og hlaut meirihluta í níu af fjórtán kjördæmum.
Íhaldsflokkurinn galt afhroð í kosningunum og tapaði ríflega 470 sveitarstjórnarsætum, rétt undir helmingi þeirra sem þeir höfðu. Eftir kosningarnar eru íhaldsmenn með 513 menn í sveitarstjórnum Englands og Wales en það vekur athygli að þeir eru færri en 521 sveitarstjórnarfulltrúar Frjálslynda demókrataflokksins eftir kosningarnar.
Þrátt fyrir dræmar niðurstöður situr Rishi Sunak sem fastast í forsætisráðherrastólnum og nýtur stuðnings ráðamanna í Íhaldsflokknum. Suella Braverman, þingkona Íhaldsflokksins og fyrrum innanríkisráðherra, stendur við bakið á Sunak. Aðspurð hvort hún teldi þörf á nýjum leiðtoga sagði hún svo ekki vera.
„Það er, held ég, ekki raunsætt eins og staðan er. Við höfum ekki nægan tíma og það getur enginn nýr komið og snúið við blaðinu, ef ég á að vera hreinskilin,“ segir hún í viðtali við breska ríkisútvarpið.
Verkamannaflokkurinn tapaði sætum í kjördæmum með stórt hlutfall múslima sem þykir benda til þess að viðbrögð fulltrúa þeirra við átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs hafi haft áhrif.
Frjálslyndi demókrataflokkurinn og Græningjar bættu einnig við sig sætum í kosningum á kostnað bæði Verkamanna- og Íhaldsflokksins. Frjálslyndir demókratar unnu mikinn sigur og bættu við sig 105 sveitarstjórnarfulltrúum.