Sport

„Eigum ekki skilið að vera komin í úr­slitin“

Andri Már Eggertsson skrifar
Sverrir Þór Sverrisson var svekktur eftir leik 
Sverrir Þór Sverrisson var svekktur eftir leik  Vísir/Vilhelm

Keflavík tapaði gegn Stjörnunni á útivelli 86-79. Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, var afar svekktur eftir tap dagsins.

„Þær börðust um alla bolta og voru á fullu í 40 mínútur. Katarzyna Trzeciak hitti svakalega vel og við gerðum risa mistök í vörninni sem varð til þess að hún var opin trekk í trekk og síðan hittum við ekki neitt,“ sagði Sverrir Þór eftir leik.

Keflavík vann aðeins einn leikhluta af fjórum og Sverrir var svekktur að liðið hafi ekki spilað betur í síðari hálfleik.

„Við vorum í hörkuleik nánast allan tímann en það vantar svolítið upp á það er bara þannig. Ef við ætlum að komast í úrslitin þá þurfum við að koma með þetta aukalega. Nú reynir á löngunina. Það þýðir ekkert að vera að hugsa og hugsa. Það er okkar að mæta af krafti í oddaleikinn og sýna að við eigum skilið að komast í lokaúrslit.“

Aðspurður hvort það væri áhyggjuefni fyrir deildar- og bikarmeistara Keflavíkur að vera að fara í oddaleik gegn Stjörnunni. Sverrir sagði að svo væri ekki.

„Það er ekkert áhyggjuefni. Við eigum ekki skilið að vera komin í úrslitin þar sem við erum ekki að spila nógu vel. Það er gaman að vera deildar- og bikarmeistarar.“

„Það er búið að tala þannig í allan vetur að við eigum að labba yfir þetta. Ég er búinn að reyna halda stelpunum niður á jörðinni og við vinnum engan nema með lið frammistöðu, baráttu og samheldni sem er möguleikinn okkar að klára oddaleikinn,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×