Bardagarnir í norðurhlutanum varpa ljósi á vandann sem blasir við Ísrael í baráttunni við Hamas en herinn hefur ítrekað lent í átökum við bardagasveitir samtakanna á afmörkuðum svæðum Gasa eftir að hafa lýst því yfir að hafa sigrað sveitirnar á umræddum svæðum.
Antony J. Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði sigra Ísraelsmanna á Hamas raunar ekki verða varanlega fyrr en þeir hefðu lagt fram trúverðuga áætlum um stjórnun Gasa í kjölfar átakanna.
Ef engar áætlanir lægju fyrir væri ekki annað í kortunum en ringulreið, stjórnleysi og endurkoma Hamas.
Ísraelsher greindi frá því um helgina að hermenn hefðu drepið nokkra bardagamenn í Zeitoun í Gasa-borg. Þá var íbúum í Jabaliya skipað að rýma svæðið á laugardag, fyrir loftárásir á tugi skotmarka.
Aðgerðirnar voru sagðar nauðsynlegar vegna fregna um tilraunir Hamas liða á svæðinu til að skipuleggja sig og ná aftur vopnum sínum. Átök héldu áfram í Zeitoun og Jabaliya í gær.
Stjórnvöld í Ísrael virðast enn staðráðin í því að ráðast inn í Rafah, gegn vilja Bandaríkjanna og annara bandamanna. Þau rökstyðja ákvörðunina meðal annars með vísan til þess að þar hafist við fjórar bardagasveitir Hamas og leiðtogar samtakanna á Gasa.
Bandaríkjamenn segja leiðtogana, til að mynda Yahya Sinwar, hins vegar alls ekki dvelja í Rafah og New York Times hefur eftir embættismönnum innan bandaríska stjórnkerfisins að ísraelsk öryggisyfirvöld hafi komist að sömu niðurstöðu.
Sinwar hafi líklega aldrei yfirgefið gangakerfið undir Khan Younis, í norðurhluta Gasa.
Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 300.000 manns hafi yfirgefið Rafah á síðustu viku.